Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

9

Ráðstefna í tengslum við RIG - Meira eða minna afreks?

08.01.2025

 

Miðvikudaginn 22. janúar fer fram ráðstefna í Háskólanum í Reykjavík, í tengslum við Reykjavíkurleikana (RIG) en ráðstefnan er samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, ÍBR og HR. Ráðstefnan hefur fengið heitið „Meira eða minna afreks?“ en hún einblínir á snemmtæka afreksvæðingu í íþróttum barna og ungmenna og áhrif hennar á ungt fólk.

Ráðstefnan veitir einstakt tækifæri til að heyra í alþjóðlegum og innlendum sérfræðingum segja frá nýjustu rannsóknum og ræða mikilvægi þess að hafa jafnvægi milli keppni og vellíðanar í íþróttum barna og ungmenna.

Ráðstefnan leitar svara við eftirfarandi spurningum:
Hvenær ætti sérhæfing barna og ungmenna í íþróttum að hefjast?
Hvernig getum við mótað framtíðar afreksfólk án þess að fórna leikgleðinni?
Verða bestu börnin endilega afreksfólk í framtíðinni?

Á meðal fyrirlesara eru:
Dr. Carsten Hvid Larsen, yfirsálfræðingur Danska knattspyrnusambandsins, en hann er dósent við háskólann Syddansk Universitet.
Katie Castle er sálfræðingur og fyrrverandi afrekskona í fimleikum og þjálfari.
Christian Thue Björndal, er dósent við Norska iþróttaháskólann í Ósló og hefur unnið sem handboltaþjálfari og rannsakandi.
Daði Rafnsson, sálfræðingur og doktorsnemi við Háskólann í Reykjavík, með mikla reynslu í knattspyrnuþjálfun. 

Nánari dagskrá og tímasetningar má finna hér
Skráning er bæði í sal og í streymi
Ráðstefnustýra verður Silja Úlfarsdóttir.

Enginn íþróttaþjálfari ætti að láta þessa ráðstefnu fram hjá sér fara! Ráðstefnan er einnig einstaklega gott tækifæri fyrir foreldra íþróttabarna til að fræðast um þetta mikilvæga málefni.

 

Myndir með frétt