Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

15.03.2025 - 15.03.2025

Ársþing KKÍ 2025

Ársþing Körfuknattleikssambands Íslands (KKÍ)...
27.03.2025 - 27.03.2025

Ársþing HSK 2025

Ársþing Héraðssambandsins Skarphéðins (HSK)...
14

Ársþing HSþ með nýju sniði

14.03.2025Ársþing HSÞ var haldið í Hlyn, sal Félags eldri borgara á Húsavík fimmtudaginn 13. mars síðastliðinn.  Þingið var nú með breyttu sniði, þ.e. haldið á virkum degi en til fjölda ára hefur ársþing HSÞ verið haldið um helgi.  Alls voru 47 þingfulltrúar mættir til þings sem er afbragðs mæting.  Þingforseti var Hjálmar Bogi Hafliðason og stýrði hann þinginu af mikilli röggsemi.  Nokkrar tillögur lágu fyrir þinginu og m.a. sú tillaga að halda þing HSÞ annað hvert ár í stað árlega.  Tillagan var samþykkt samhljóða auka annarra tillagna sem lágu fyrir, sumar þó með lítilsháttar breytingum.  Fjárhagsáætlun var samþykkt með þeirri breytingu að hækka framlag í Fræðslu- og styrktarsjóð um eina milljón sem leiðir til hallareksturs HSÞ um þá upphæð, tæplega þó.  Góð fjárhagsleg staða héraðssambandsins leyfir vel þá áætlun enda var hún samþykkt samhljóða.  Jón Sverrir Sigtryggsson var endurkjörinn formaður með lófaklappi og aðrir í stjórn nú eru Sigfús Hilmir Jónsson, Sigurbjörn Veigar Friðgeirsson, Jónas Halldór Friðriksson og Bergþóra Th. Þórarinsdóttir.  Hulda Þórey Garðarsdóttir gaf ekki kost á sér til endurkjörs í stjórn og var henni þakkað fyrir góð störf.  Í varastjórn eru þær Hulda Kristín Baldursdóttir og Dagbjört Aradóttir.  Fulltrúi ÍSÍ á þinginu var Viðar Sigurjónsson sérfræðingur á stjórnsýslusviði ÍSÍ og aðrir gestir voru Þóra Pétursdóttir svæðisfulltrúi á Norðurlandi eystra og Haukur Valtýsson frá UMFÍ.  Á myndinni eru frá vinstri Lilja Friðriksdóttir ritari þingsins, Jón Sverrir formaður, Gunnhildur Hinriksdóttir framkvæmdastjóri HSÞ og Hjálmar Bogi þingforseti. Tvær myndir eru svo yfir þingsalinn.

Myndir með frétt