Almar Ögmundsson kjörinn varaforseti Evrópska hnefaleikasambandsins

Aldrei áður hefur Íslendingur gegnt jafn stóru embætti innan alþjóðlegra samtaka um hnefaleika og því markar kjörið tímamót fyrir Ísland í hnefaleikum á alþjóðavísu.
“Stofnun Evrópska hnefaleikasambandsins (European Boxing) er stórt og spennandi skref fyrir framtíð hnefaleika í álfunni. En til að skilja hvers vegna þetta skref skiptir máli, þarf að horfa aðeins til baka. Fyrra alþjóðasamband hnefaleika var fjarlægt úr ólympíuhreyfingunni eftir mikla og viðvarandi spillingu. Sú spilling hafði áhrif langt út fyrir alþjóðastjórnin – hún náði líka til álfusambanda og hafði áhrif á sjálft traustið á íþróttinni. Til að bregðast við þessu var World Boxing stofnað árið 2023, með það að markmiði að byggja upp nýtt, traust alþjóðasamband þar sem heiðarleiki, gagnsæi og hagsmunir íþróttafólks væru í forgrunni. Í framhaldi af því var tímabært að stofna nýtt Evrópusamband. En þetta samband stendur nú við byrjunarlínuna. Það eru engir fjármunir til staðar, engir eldri innviðir að byggja á – aðeins hópur fólks sem er tilbúinn að vinna vinnuna. Það er mikil og krefjandi uppbygging framundan, þar sem við þurfum að leggja grunn að öllu: stjórnsýslu, mótahaldskerfi, menntunarkerfi, stuðningsverkefnum og alþjóðlegum tengslum. Þetta er sannkallað frumkvöðlastarf, í þágu íþróttarinnar,“ segir Almar.
Ísland átti tvo fulltrúa í Prag en auk Almars var Jón Birkir Lúðvíksson, formaður Hnefaleikasambands Íslands, viðstaddur fundinn. Alls sóttu fulltrúar 23 landssambanda aðalfundinn og staðfestu þar formlega stofnun sambandsins.
Almar hefur verið virkur í þróun og uppbyggingu hnefaleika á Íslandi og í Evrópu síðustu ár og segir að nú séu spennandi tímar framundan. „Það sem mér finnst sérstaklega jákvætt er að við erum að móta þetta frá grunni og við getum raunverulega haft áhrif á hvernig þetta verður. Nú þegar eru fjögur stór mót á dagskrá í ár, og það er frábært að sjá þessi tækifæri verða að veruleika. Þetta snýst ekki bara um keppnir heldur líka um virðingu, aðgengi og jöfn tækifæri fyrir allt íþróttafólk í álfunni.“ Lars Brovil frá Danmörku var kjörinn fyrsti forseti Evrópska hnefaleikasambandsins en varaforsetar eru Almar Ögmundsson, Marketa Haindlova frá Tékklandi og Len Huard frá Hollandi.
Evrópska hnefaleikasambandið stefnir að því að vinna náið með World Boxing, landsamböndum, ólympíunefndum og öðrum álfusamtökum til að tryggja gagnsæi, góða stjórnsýslu, þróun íþróttafólks og sjálfbæra fjármálastjórn. Nánar má lesa um kjörið á síðu Hnefaleikasambandsins.