Heiðranir á 77. íþróttaþingi ÍSÍ

Við þingsetningu á íþróttaþingi ÍSÍ í dag voru veittar heiðursviðurkenningar til forystufólks úr íþróttahreyfingunni.
Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursráðs ÍSÍ, ávarpaði samkomuna fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ. Framkvæmdastjórn ÍSÍ samþykkti einróma að sæma fjóra einstaklinga Heiðurskrossi ÍSÍ fyrir frábært og langvarandi starf í þágu íþróttahreyfingarinnar.
Guðríður Aadnegard
Guðríður er formaður HSK og hefur verið í því embætti frá árinu 2010 eða í 15 ár. Hún var kjörin í varastjórn HSK árið 2000 og varð ritari sambandsins ári síðar. Hún er því búin að vera í leiðtogastarfi hjá HSK í 25 ár. Guðríður var áður formaður Íþróttafélagsins Hamars um árabil.
Guðríður var var sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ Þess má geta að Guðríður hlaut hvatningarverðlaun dags gegn einelti árið 2021, í starfi sem námsráðgjafi og umsjónarkennari við Grunnskólann í Hveragerði.
Höskuldur Goði Karlsson
Höskuldur Goði er vel þekktur innan frjálsíþróttahreyfingarinnar sem keppandi og síðar leiðtogi. Hann sat um skeið í stjórn Frjálsíþróttasambands Íslands og var einnig mjög virkur í nefndarstarfinu. Hann var gerður að Heiðursfélaga FRÍ árið 2018.Hann átt farsælan feril í íslenska frjálsíþróttalandsliðinu sem einn besti spretthlaupari landsins. Höskuldur Goði var fyrir margt löngu erindreki á vegum ÍSÍ og fór um landið til að huga að útbreiðsluþörf fyrir íþróttir. Höskuldur Goði gat ekki verið viðstaddur þingið en fær Heiðurskrossinn afhentan við fyrsta tækifæri.
Dr. Ingimar Jónsson
Dr. Ingimar þekkja margir í íþróttahreyfingunni. Hann var lengi kennari við Íþróttakennaraskóla Íslands á Laugarvatni, sat í Ólympíunefnd Íslands frá 1973-1980 og hefur í gegnum tíðina sinnt ýmsum störfum í íþróttahreyfingunni og skákhreyfingunni. Hann var forseti Skáksambands Íslands um tíma og einnig formaður Íþróttakennarafélags Íslands. Dr. Ingimar hefur ritað fjölmargar bækur um íþrótta- og ólympíutengd málefni og lagt gríðarlega mikið af mörkum við heimilda- og söguskráningu um íþróttir á Íslandi og víðar.
Jón Ásgeir Eyjólfsson
Jón Ásgeir var forseti Golfsambands Íslands á árunum 2005 – 2013 eða í átta ár en hann var áður formaður Nesklúbbsins til níu ára. Sem leiðtogi í golfhreyfingunni tók Jón Ásgeir virkan þátt í störfum Íþróttaþinga en hann hefur einnig veitt ÍSÍ ómetanlegan stuðning við undirbúning og framkvæmd Íþróttaþinga ÍSÍ til margra ára, sem formaður kjörnefndar þingsins.
ÍSÍ óskar öllum Heiðurskrosshöfunum innilega til hamingju með heiðursviðurkenninguna.
Hafsteinn kynnti því næst þau fimm sem kjörin voru Heiðursfélagar ÍSÍ. Allir þessir nýkjörnu heiðursfélagar hafa skilað framúrskarandi starfi í þágu íþrótta og hafa þau öll hlotið Heiðurskross ÍSÍ, æðstu heiðursviðurkenningu ÍSÍ.
Birna Björnsdóttir
Birna hefur verið leiðtogi í fimleikahreyfingunni á Íslandi í áratugi. Hún sat í stjórn Fimleikasambands Íslands sem meðstjórnandi, síðar varaformaður og sem formaður frá árinu 1985 – 1987. Síðar sneri hún aftur í stjórn og gegndi meðal annars varaformennsku frá 2008 – 2012. Birna var mjög virk í alþjóðastarfi fimleika, innan Fimleikasambands Norðurlanda, Evrópska fimleikasambandsins og Alþjóðafimleikasambandsins þar sem hún lét mikið að sér kveða. Birna var sæmd Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2021.
Guðmundur Pétursson
Guðmundur á langan og farsælan feril innan íþróttahreyfingarinnar, sem afreksíþróttamaður og síðar sem leiðtogi í fjölbreyttum störfum á vegum KR, KSÍ og ÍSÍ. Hann sat í stjórn KSÍ um árabil og var varaformaður sambandsins. Einnig sat hann í áfrýjunardómstól UEFA og sinnti einnig eftirlitsstörfum fyrir UEFA. Hann sat í laganefnd ÍSÍ í áratugi og á að baki víðtæk störf í dómstólum íþróttahreyfingarinnar og sem fundarstjóri á aðalfundum og ársþingum. Guðmundur var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2016.
Jón M. Ívarsson
Jón á að baki fjölbreytt hlutverk innan íþróttahreyfingarinnar, meðal annars sem iðkandi, stjórnarmaður, dómari og leiðtogi. Hann var meðal annars formaður Glímusambands Íslands á árunum 1995 – 2001 og gegndi embætti ritara hjá Frjálsíþróttasambandi Íslands. Hann hefur verið ómetanlegur við heimilda- og söguskráningu í íþróttahreyfingunni, skráð sögu fjölmargra eininga og góðfúslega gefið svör og leitað svara við ýmsum spurningum sem upp koma í starfinu og grafast þarf fyrir um í eldri heimildum. Jón var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2019.
Jón Hjaltalín Magnússon
Jón var landsliðsmaður í handknattleik á sínum yngri árum og tók sem slíkur meðal annars þátt í Ólympíuleikum fyrir hönd Íslands. Hann er núverandi formaður Samtaka íslenskra Ólympíufara og hefur gegnt því embætti frá árinu 2016. Jón var formaður Handknattleikssambands Íslands 1984 – 1992 og var aðaldriffjöðrin í að ná HM í handknattleik hingð til landsins árið 1995. Hann sat í Ólympíunefnd Íslands 1984-1992. Jón var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2016.
Sigurjón Pétursson
Sigurjón Pétursson var varaformaður Handknattleikssambands Íslands um langt skeið og einnig formaður Kraftlyftingasambands Íslands. Sigurjón var einn af frumkvöðlum endurstofnunar Kraftlyftingasambandsins sem sérsambands innan ÍSÍ og var kjörinn fyrsti formaður þess. Hann var kjörinn fyrsti Heiðursformaður Kraftlyftingasambandsins 2020 og var tekinn inn í Heiðurshöll Alþjóðakraftlyftingasambandsins 2021.
Sigurjón gegnir nú embætti forseta Alþjóðakraftlyftingasambandsins en hann var um árabil varaforseti hjá því sambandi. Sigurjón var sæmdur Heiðurskrossi ÍSÍ árið 2020.
ÍSÍ óskar nýkjörnum Heiðursfélögum ÍSÍ innilega til hamingju með heiðursviðurkenninguna og þökkum þeim fyrir þeirra góðu störf í þágu íþróttanna.