Setning 77. íþróttaþings ÍSÍ og fyrri þingdagur

77. íþróttaþing ÍSÍ var sett í dag, 16.maí, klukkan 15:30 á Berayja Reykjavík Natura í Reykjavík. Lárus Blöndal, forseti ÍSÍ, setti þingið. Í upphafi minntist Lárus fallinna félaga úr íþróttahreyfingunni, þeirra Ellerts B. Schram, Heiðursforseta ÍSÍ og fyrrverandi forseta ÍSÍ, og þeirra Jóns Gests Viggóssonar og Harðar Gunnarssonar sem báðir voru heiðursfélagar ÍSÍ.
Lárus fór vel yfir sviðið í ávarpi sínu á hans síðasta íþróttaþingi sem forseti ÍSÍ. „Á Íþróttaþingi er samankominn sá hópur fólks sem fer fyrir því öfluga starfi sem íþróttahreyfingin stendur fyrir um allt land, í félögum, íþróttahéruðum, sérsamböndum og í hinum ýmsu verkefnum sem hreyfingin stendur fyrir. Þetta eru fulltrúar fyrir barna og unglingastarfið, afreksstarfið, almenningsíþróttastarfið, alþjóðastarfið og ekki síst félagsstarfið sem gerir íþróttahreyfinguna að lang öflugustu og fjölmennustu fjöldahreyfingu á Íslandi. Það bíður stór ákvörðun þingfulltrúa á þinginu um helgina þar sem kjósa þarf um það hver verður næsti forseti ÍSÍ og hver mun leiða starf ÍSÍ næstu árin. Eins og fram kemur í þessu ávarpi þá erum við á ákveðnum tímamótum. Draumur okkar um alvöru afreksstarf sem stenst samanburð við það sem gerist hjá okkar nágrannaþjóðum er að rætast. Þá hefur starfsemi ÍSÍ aldrei verið öflugri. Það eru því spennandi tímar fyrir nýja stjórn og nýjan forseta að láta verkin tala,“ sagði Lárus meðal annars við setningu þingsins í dag.
Guðrún Inga Sívertsen var kjörinn 1. þingforseti og Viðar Helgason 2. þingforseti. Þingritarar voru kjörnir þeir Jón Reynir Reynisson 1. þingritari og Margrét Regína Grétarsdóttir 2. þingritari.
Frú Halla Tómasdóttir, forseti Íslands, ávarpaði þingið. Í ræðu sinni fór Halla meðal annars yfir mikilvægi íþrótta fyrir andlega og líkamlega heilsu. Þá fór hún yfir mikilvægi íþrótta í forvarnarstarfi og lýðheilsu. „Virði íþrótta nær langt umfram sigra. Íþróttir mennta fólk, aga það, búa til félagsleg tengsl, stuðla að góðri heilsu og endatakmarkið hlýtur því að vera gleði og hamingja.“
Guðmundur Ingi Kristinsson, mennta- og barnamálaráðherra, flutti ávarp og greindi meðal annars frá því að undirbúningur nýrrar þjóðarhallar væri langt á veg kominn. Hann þakkaði einnig Lárusi Blöndal, fráfarandi forseta ÍSÍ, fyrir sín störf í forsetaembættinu og færði honum gjöf í þakklætisskyni.
Jóhann Steinar Ingimundarson, formaður UMFÍ, flutti ávarp þar sem hann þakkaði meðal annars fyrir aukið samstarf UMFÍ og ÍSÍ á undanförnum árum. Hann fór yfir mörg þeirra verkefna sem nú eru unnin á svæðisstöðvum íþróttahéraðanna víða um land, sem og, mikilvægi verkefnisins Allir með, samstarfsverkefni ÍSÍ, UMFÍ, Íþróttasambands fatlaðra og þriggja ráðuneyta.
Hafsteinn Pálsson, formaður Heiðursráðs ÍSÍ, ávarpaði samkomuna fyrir hönd framkvæmdastjórnar ÍSÍ og veitti heiðursviðurkenningar. Frétt um heiðranir á íþróttaþinginu má finna hér.
Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, flutti skýrslu stjórnar og Hörður Þorsteinsson, gjaldkeri ÍSÍ, kynnti reikninga. Reikningar sambandsins voru samþykktir samhljóma.
Tillögum þingsins var vísað í nefndir sem starfa munu fram eftir kvöldi.
Framundan eru framboðsræður þeirra sem eru í framboði til forseta ÍSÍ og framkvæmdastjórnar ÍSÍ en kosning um forseta og í framkvæmdastjórn verður á morgun, laugardag.
Ársskýrslu ÍSÍ 2025 má finna hér.