„Við erum öll með sama markmið; að íþróttafólkið fái að blómstra"

Þriðjudaginn 16. september funduðu Kristín Birna Ólafsdóttir, afreksstjóri í Afreksmiðstöð Íslands, Patrekur Jóhannesson, sérfræðingur hjá Afreksmiðstöð Íslands og Andri Stefánsson, framkvæmdastjóri ÍSÍ, með Skólameistarafélagi Íslands en félagið er skipað skólastjórnendum framhaldsskólanna.
Fulltrúar ÍSÍ kynntu hugmyndafræði Afreksmiðstöðvarinnar (AMÍ) fyrir skólastjórnendum og rætt var hvernig skólasamfélagið og íþróttahreyfingin geti unnið saman að því að hlúa að afreksfólki innan skólakerfisins með samþættingu náms og afreksíþrótta.
Ákall um sveigjanleika í námi vegna afreksíþrótta er ekki nýtt af nálinni og því er mikilvægt að efla samstarf og samtal á milli allra aðila svo nemandinn nái sem bestum árangri, hvort sem er í námi eða keppni.
„Við erum öll með sama markmið; að íþróttafólkið fái að blómstra. Það er lykilatriði að íþróttafólk geti stundað nám samhliða íþróttunum og þess vegna er samtalið við skólana afar mikilvægt. Það voru allir sammála um að vilja gera enn betur svo hægt sé að efla umgjörðina fyrir upprennandi afreksíþróttafólk,” segir Kristín Birna Ólafsdóttir, afreksstjóri AMÍ.