Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
26

Yfirlýsing um Ríó og baráttuna gegn lyfjamisnotkun

23.06.2016 14:21

Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) og alþjóðasamböndum þess er umhugað um að keppni íþróttamanna sé á jafnréttisgrunni og enginn hafi hag af misnotkun árangursbætandi efna. Á leiðtogafundi (Olympic Summit)  með fulltrúum Alþjóðaólympíunefndarinnar, nokkrum af stærstu alþjóðasamböndum íþrótta og fulltrúum ólympíunefnda Rússlands, Bandaríkjanna og Kína var farið yfir helstu ráðstafanir sem IOC hefur gert til að vernda íþróttamenn sem keppa á leikunum í Ríó í sumar. Má þar nefna greiningu sýna sem geymd voru frá leikunum í Peking 2008 og London 2012 og aukna áherslu á lyfjaprófun í aðdraganda leikanna til viðbótar við þau próf sem gerð eru á vegum alþjóðlegra sérsambanda. Í tengslum við 2020 áætlun IOC hefur sérstakur rannsóknarsjóður verið stofnaður sem styrkir rannsóknir tengdar baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. 

Á fundinum var rætt um lyfjamisnotkunarmál og áhrif á keppnisrétt, boðvald ólíkra aðila og jafnvægi á milli ábyrgðar hreyfingarinnar og jafnræðis. Ljóst er að baráttan gegn lyfjamisnotkun er ekki verkefni einstakra hópa eða samtaka, ef árangur á að nást þarf samvinnu og samstarf margra einstaklinga og hópa víðs vegar að. Á leiðtogafundinum var einróma samstaða um að leggja áherslu á eftirtalin fimm atriði:

  • Að virða og styðja ákvörðun Alþjóðafrjálsíþróttasambandsins um keppnisbann rússneskra frjálsíþróttamanna á leikunum í Ríó.
  • Alþjóðleg sérsambönd og ólympíunefndir skulu gera allt sem í þeirra valdi stendur til að íþróttamenn, sem uppvísir hafa verið að brotum á lyfjareglum, taki ekki þátt í leikunum. Bregðast þarf skjótt við ef efni af bannlista greinast í sýnum frá fyrri leikum og útiloka þá íþróttamenn frá keppni.
  • Huga þarf að því að refsa ekki einungis íþróttamönnum heldur einnig öðrum þeim er aðstoða íþróttamanninn á einhvern hátt verði íþróttamaður uppvís að brotum á lyfjareglum.
  • Þar sem lyfjaeftirlitsyfirvöld í Kenía og Rússlandi uppfylla ekki kröfur sem Alþjóða lyfjaeftirlitið setur þurfa alþjóðasambönd að meta vel þátttökurétt íþróttamanna frá þeim löndum.
  • Til að fara yfir þær reglur sem gilda og bæta enn frekar samvinnu og samstöðu hvöttu aðilar Alþjóða lyfjaeftirlitið til að halda auka alheimsráðstefnu árið 2017.

Ítarlegri upplýsingar um fundinn, þátttakendur og helstu niðurstöður má finna á heimasíðu Alþjóðaólympíunefndarinnar - sjá hér.

Til baka