Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

05.12.2024 - 05.12.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
26

Dr. Ron Maughan í Kastljósi

17.02.2017 14:47

Þann 26. janúar fór fram ráðstefna um lyfjamál og fæðubótarefni í Háskólanum í Reykjavík.

Dr. Ron Maughan var einn af þeim fyrirlesurum sem flutti erindi á ráðstefnunni. Hann er sérfræðingur í íþróttanæringarfræði og fæðubótarefnum. Ron hefur leitt þennan málaflokk hjá Alþjóðaólympíunefndinni (IOC) frá árinu 2002 og hefur mikla reynslu á þessu sviði. Ron fór við tilefnið í viðtal í Kastljósi, þar sem hann ræddi um fæðubótarefni. Hann segir að það sé engin almenn skilgreining til á því hvað sé fæðubótarefni og hvað ekki, en að það eitt sé víst að gæðaeftirliti með fæðubótarefnum sé ábótavant. Hann segir að neikvæðu hliðarnar á inntöku fæðubótarefna séu nokkrar, t.d. séu þau mögulega peningasóun, því efnið geri kannski ekkert fyrir mann og mögulega sé innihald efnanna ekki það sem maður heldur. Notkun fæðubótarefna geti valdið heilsuskaða og sé mikið áhyggjuefni, t.d. sýni rannsóknir að líkur á eistnakrabbameini hjá karlmönnum sem nota vaxtarræktarefni að staðaldri aukist um 65% og kannanir hafi sýnt aukna hættu á lifrarskaða. 

Íþróttafólk þarf sérstaklega að hafa varann á þegar að kemur að inntöku fæðubótarefna, því það ber alltaf sjálft ábyrgð á því sem það neytir og getur átt á hættu að falla á lyfjaprófi og enda í keppnisbanni. Rannsóknir hafa sýnt að fæðubótarefni innihalda stundum efni á bannlista WADA og innihaldslýsingar eru oft rangar.

Viðtalið við Dr. Ron Maughan má sjá hér á vefsíðu RÚV.

Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands og Íþróttabandalag Reykjavíkur stóðu fyrir ráðstefnunni, í samstarfi við HR.
Til baka