Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.10.2018 - 14.10.2018

Ársþing LH 2018

Ársþing Landssambands hestamanna verður...
21

Samkvæmt Alþjóðlegu lyfjareglunum og kafla 11. í Alþjóðlegum reglum um lyfjapróf ber lyfjaeftirlitum allra landa auk alþjóðlegra sérsambanda að taka upp skráðan lyfjaprófunarhóp.

Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ hefur tekið upp slíkan hóp. Við val á einstaklingum er tekið mið af stöðu viðkomandi á heimslista og þátttöku á stórum alþjóðlegum mótum. Íþróttamönnunum ber að skila ársfjórðungslega eftirfarandi upplýsingum fyrir komandi tímabil:

 1. Fullt nafn, símanúmer, heimilisfang og netfang
 2. Íþrótt og íþróttagreinar sem hann stundar
 3. Fullt nafn, símanúmer, heimilisfang og netfang þjálfara
 4. Samþykki fyrir að staðsetningarupplýsingum sé miðlað til annarra lyfjaeftirlita sem rétt hafa til að boða íþróttamanninn í lyfjapróf samkvæmt grein 14.6 í Alþjóða lyfjareglunum
 5. Nafn og heimilisfang þeirra staða sem æfingar eru stundaðar á auk fastra tímasetninga.
 6. Keppnisáætlun fyrir tímabilið auk upplýsinga um nöfn á keppnisstöðum, staðsetningar þeirra og dagsetningar keppni.
 7. Upplýsingar um fötlun sem gæti haft áhrif á framkvæmd lyfjaeftirlits.
 8. Klukkustund hvern dag, milli kl. 6.00 og 23.00, þar sem hægt er að nálgast íþróttamanninn og boða hann í lyfjapróf utan keppni.

Alþjóða lyfjaeftirlitið (WADA) hefur þróað vefforritið ADAMS til þess meðal annars að halda utan um skráningu staðsetningarupplýsinga hjá íþróttamönnum sem valdir hafa verið í skráðan lyfjaprófunarhóp. Þess er krafist að íþróttamenn sem Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ hefur valið í skráðan lyfjaprófunarhóp skili staðsetningarupplýsingum með ADAMS. Íþróttamenn sem valdir eru í skráðan lyfjaprófunarhóp fá leiðbeiningar um notkun ADAMS og notendanafn til að skrá sig í kerfið.

Þær upplýsingar sem skráðar eru í ADAMS hefur Lyfjaeftirlitsnefnd ÍSÍ sjálfkrafa aðgang að. Jafnframt alþjóðasamband viðkomandi íþróttamanns og WADA. Upplýsingarnar eru eingöngu notaðar til að skipuleggja lyfjaeftirlit. Upplýsingarnar eru meðhöndlaðar svo fyllsta trúnaðar sé gætt. Það er alltaf íþróttamaðurinn sjálfur sem ber ábyrgð á því að upplýsingarnar séu réttar og fullnægjandi óháð því hver skráir þær inn.

Refsing vegna brota á reglum um skil á staðsetningarupplýsingum:

Eftirfarandi telst brot á reglum um skil á staðsetningarupplýsingum samkvæmt grein 2.4 í Alþjóða lyfjareglunum:

 1. Sé upplýsingum ekki skilað tímanlega
 2. Séu upplýsingar sem skilað er ekki réttar eða ófullnægjandi
 3. Missir af lyfjaprófi („missed test”), ef íþróttamaður er ekki til staðar á uppgefnum stað og tíma og Lyfjaeftirlitsnefnd getur ekki haft uppá íþróttamanninum í lyfjapróf án fyrirvara.

Brot á einhverju af ofangreindu hefur í för með sér aðvörun í hvert skipti sem slíkt brot á sér stað.
Þrjár aðvaranir á 18 mánaða tímabili hefur málsókn fyrir dómstóli ÍSÍ í för með sér. Dómur vegna slíkra brota getur haft í för með sér 12-24 mánaða útilokun frá æfingum og keppni.