Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

6

Ferlið

1 - Val á íþróttamanni

Lyfjaeftirlit má framkvæma á hverjum þeim íþróttaiðkanda sem er meðlimur í félagi eða tekur þátt í keppni eða æfingum á vegum íþróttasamtaka sem aðild eiga að ÍSÍ.

Val á íþróttamönnum í lyfjaeftirlit er byggt á vinnureglum viðkomandi lyfjaeftirlitsaðila. Valið getur farið fram á þrjá vegu: tilviljunarkennt, byggt á fyrirfram ákveðnu viðmiði svo sem ákveðið sæti í úrslitum, eða út frá líkum

2 - Boðun í lyfjapróf

Sérhver meðlimur í félagi innan Íþrótta- og Ólympíusambands Íslands eða aðili utan sambandsins, sem tekur þátt í æfingum eða keppni á vegum íþróttasamtaka sem aðild eiga að ÍSÍ, má eiga von á að vera boðaður í lyfjaeftirlit. Þegar lyfjapróf er tekið kynnir lyfjaeftirlitsaðili sig og gerir íþróttamanni grein fyrir rétti hans og skyldum, þar á meðal rétti hans til að hafa með sér fylgdarmann í gegnum allt ferlið. Íþróttamaðurinn staðfestir með undirskrift sinni að hann hafi móttekið boðun um lyfjaeftirlit og að hann muni fara að fyrirmælum lyfjaeftirlitsaðilans.

3 - Mætt í lyfjaeftirlitsstöð

Íþróttamaður sem boðaður hefur verið mætir til lyfjaeftirlitsstöðvar svo fljótt sem kostur er. Lyfjaeftirlitsaðili getur samþykkt seinkun á mætingu á lyfjaeftirlitsstöð vegna frekari keppni, áframhaldandi æfinga, verðlaunaafhendingar, viðtals við fjölmiðla eða annarrar ástæðu sem lyfjaeftirlitsaðili telur sanngjarna. Lyfjaeftirlitsaðili fylgir íþróttamanninum hvert fótmál frá boðun og þar til komið er í lyfjaeftirlitsstöð. Íþróttamaður þarf að geta framvísað skilríki svo tryggt sé að hann sé sá sem var boðaður. Þegar komið er í lyfjaeftirlitsstöðina bjóðast íþróttamanninum innsiglaðir drykkir, en þar sem hann ber alla ábyrgð á því hvað hann lætur ofan í sig þá er honum jafnframt frjálst að koma með sína eigin drykki.

4 - Val á þvagsýnisglasi

Íþróttamaðurinn velur sér innsiglað þvagsýnisglas og gætir þess að ekki hafi verið átt við glasið eða innsigli þess. Eftir að hafa valið sér glas gætir íþróttamaðurinn þess allt þar til þvagi hefur verið skilað í sýnatökuglösin og þau innsigluð.

5 - Þvagsýni

Einungis íþróttamaðurinn og lyfjaeftirlitsaðili af sama kyni eru viðstaddir þegar íþróttamaðurinn skilar sýni í þvagsýnisglasið. Þeir íþróttamenn sem ekki hafa náð lögaldri og fatlaðir íþróttamenn geta fengið að hafa með sér fylgdarmann á salernið. Sá aðili fær þó ekki að fylgjast með þegar íþróttamaðurinn gefur þvagsýni. Markmiðið með þessu er að tryggja að lyfjaeftirlitsaðilinn greini sem best ef íþróttamaðurinn reynir að hafa rangt við. Íþróttamanninum er skylt að bera sig frá hnjám og upp að bringu og eins hendur neðan olnboga. Þetta er gert til að auðvelda lyfjaeftirlitsaðila að greina hvort allt fari fram eftir settum reglum.

Íþróttamaðurinn gætir sýnisins þar til öllu ferlinu er lokið, nema hann sökum fötlunar þurfi aðstoð fylgdarmanns síns.

6 - Magn þvags

Íþróttamaður þarf að skila að lágmarki 90 ml. af þvagi. Ef erfiðlega gengur að ná því magni getur lyfjaeftirlitsaðilinn innsiglað í til þess gert ílát það þvag sem þegar er komið, á meðan íþróttamanninum gefst tími til að drekka meiri vökva. Íþróttamaðurinn er ábyrgur fyrir hinu innsiglaða sýni þar til hann er reiðubúinn að gefa frekara sýni. Seinna sýninu skal bætt við hið upprunalega í nýtt þvagsýnisglas þar til 90 ml er náð.

Nota skal fyrsta þvagsýni frá boðun

7 - Val á sýnatökuglösum

Þegar íþróttamaður hefur skilað fullnægjandi þvagsýni velur hann sér innsiglaðan pakka með glerflöskum undir sýni. Íþróttamaðurinn gætir þess að umbúðirnar séu heilar og að ekkert hafi verið átt við þær. Íþróttamaðurinn opnar pakkann og gengur úr skugga um að númerin á umbúðum, sýnatökuglösum og lokum séu þau sömu.

8 - Sýninu skipt

Íþróttamaðurinn hellir sjálfur þvagsýni sínu í sýnatökuglösin undir eftirliti lyfjaeftirlitsaðilans. Lyfjaeftirlitsaðilinn bendir íþróttamanninum á hversu miklu skal hellt í hvort glas fyrir sig, en fyrst skal hella 30 ml í glas B, og svo 60 ml í glas A. Íþróttamaðurinn skilur eftir smáræði af þvagi í þvagsýnisglasinu sem lyfjaeftirlitsaðilinn notar til að mæla eðlisþyngd sýnisins og sýrustig.

9 - Sýnatökuglös innsigluð

Íþróttamaðurinn innsiglar A og B glösin. Fylgdarmaður og lyfjaeftirlitsaðili skulu sannreyna að glösunum hafi verið lokað kyrfilega og þau leki ekki.

Lyfjaeftirlitsaðilinn mælir eðlisþyngd sýnisins. Gildin eru skráð á lyfjaeftirlitseyðublaðið. Ef þvagsýnið uppfyllir ekki kröfur um eðlisþyngd  getur lyfjaeftirlitsaðili krafið íþróttamanninn um annað sýni.

10 - Frágangur lyfjaeftirlitseyðublaðs

Íþróttamaðurinn er beðinn að tilgreina öll þau lyf og fæðubótarefni sem hann hefur tekið síðustu vikuna. Þá gefst honum tækifæri til að skrifa athugasemdir á blaðið varðandi framkvæmd lyfjaeftirlitsins. Því næst les hann yfir þær upplýsingar sem skráðar hafa verið og gengur úr skugga um að þær séu réttar.

Að lokum skulu íþróttamaðurinn, fylgdarmaður hans ef einhver er, ábyrgðarmaður lyfjaeftirlitsins og annar lyfjaeftirlitsmaður staðfesta með undirritun sinni að uppruni viðkomandi sýnis sé sá sem fram kemur á eyðublaðinu.

Íþróttamaðurinn fær afrit af lyfjaeftirlitseyðublaðinu, annað fer til framkvæmdaraðila lyfjaeftirlitsins og það þriðja, án allra persónuupplýsinga, fer með sýninu á rannsóknarstofu.

11 - Rannsóknarferlið

Eftir að framkvæmd lyfjaeftirlits er lokið er sýnunum vandlega pakkað og þau send til greiningar á rannsóknarstofu sem nýtur viðurkenningar WADA.

Á rannsóknarstofunni er stuðst við alþjóðlega staðla WADA fyrir rannsóknarstofur við meðhöndlun sýnisins sem tryggir að ekki er hægt að spilla niðurstöðunum meðan á rannsókn stendur.

A sýnið er notað til að greina hvort einhver efni af bannlistanum sé að finna í sýninu. Ef greining þess gefur til kynna að íþróttamaðurinn hafi gerst sekur um lyfjamisnotkun á hann rétt á að vera viðstaddur greiningu B-sýnis.

Rannsóknarstofan tilkynnir niðurstöður greiningar til framkvæmdaraðila lyfjaeftirlitsins og WADA, yfirleitt innan 4-6 vikna. Framkvæmdaraðili lyfjaeftirlitsins greinir svo frá niðurstöðum þegar þær liggja fyrir á heimasíðu Lyfjaeftirlits Íslands, www.lyfjaeftirlit.is.