Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

24

Íþróttaslysasjóður

Tilkynning um íþróttaslys

Reglugerð ÍSÍ um greiðslu bóta vegna íþróttaslysa.

Þann 1. apríl 2002 tók gildi reglurgerð nr. 245/2002 um slysatryggingar íþróttafólks samkv. III kafla almannatryggingalaga.
Íþróttafólk verður eftir sem áður sjúkratryggt rétt eins og aðrir þegnar landsins.

Heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið ákvað að veita Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands styrk til þess að mæta kostnaðarhluta íþróttafólks sem verður fyrir íþróttameiðslum. Fram til ársins 2010 dugði styrkur ráðuneytisins til að endurgreiða íþróttafólki 80% af kostnaðarhluta sjúklings vegna læknismeðferða og sjúkraþjálfunar en um mitt árið 2010 neyddist framkvæmdastjórn ÍSÍ til að lækka endurgreiðsluhlutfallið í 40%. 
Helstu ástæður sem lágu að baki þeirrar skerðingar voru hækkanir á læknisþjónustu og meðferðum í sjúkraþjálfun, hækkun viðmiðunar til afsláttarkjara hjá Sjúkratryggingum Íslands, mikil aukning umsókna og lækkun framlags heilbrigðisráðuneytisins, sem nú heitir Velferðarráðuneyti.
Árið 2015 samþykkti framkvæmdastjórn ÍSÍ að hækka endurgreiðsluhlutfall kostnaðar sem stofnað hefur verið til frá og með 1. ágúst 2015 upp í 80%. Endurgreiðsluhlutfall vegna kostnaðar sem stofnast hefur til fyrir 1. ágúst 2015 er 50%.

Í gildi er Reglugerð ÍSÍ um greiðslu bóta vegna íþróttaslysa og má hana finna undir Lögum og reglugerðum á vefsíðu ÍSÍ.

Þeir sem vilja sækja um endurgreiðslu þurfa að fylla út sérstakt eyðublað sem kallast tilkynning um íþróttaslys. Athugið að beiðni um endurgreiðslu verður ekki tekin til afgreiðslu nema öll tilskilin gögn fylgi með. ÍSÍ tekur til endurgreiðslu m.a. kostnað vegna viðtals við lækni, myndatöku, segulómunar, aðgerða, komu og endurkomu á slysadeild og sjúkraþjálfunar. Dæmi um það sem ekki er endurgreitt er m.a. kostnaður vegna kaupa á lyfjum eða stoðtækjum, tannviðgerða, kostnaðs við sjúkrabíl eða flugfargjalda í tengslum við læknisþjónustu. ÍSÍ tekur ekki þátt í kostnaði þjónustu sem ekki er niðurgreidd af Sjúkratryggingum Íslands.

Nýskráning slyss þarf að berast ÍSÍ innan 12 mánaða frá því slysið á sér stað.

Athugið að þeir íþróttaiðkendur sem verða fyrir slysi sem veldur óvinnufærni í 10 daga eða meira þurfa að sækja um endurgreiðslu til Sjúkratrygginga Íslands á þar til gerðum eyðublöðum. Íþróttaslys íþróttaiðkenda sem þiggja laun fyrir íþróttaiðkun sína, hvort sem er um að ræða verktaka eða launþega, flokkast sem vinnuslys og sækja þarf um endurgreiðslu hjá Sjúkratryggingum Íslands á þar til gerðum eyðublöðum.