Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

12.11.2024 - 12.11.2024

Fundur

Fundur verður haldinn í framkvæmdastjórn ÍSÍ...
12

Úthlutun úr Afrekssjóði ÍSÍ fyrir árið 2014

24.01.2014

Tilkynnt var um úthlutun úr Afrekssjóði fyrir árið 2014 í dag.  Styrkveitingar ÍSÍ að þessu sinni nema samtals rúmlega 96 milljónum króna. Alls sóttu 26 sérsambönd  um styrki úr sjóðnum.  Hljóta þau öll styrk að þessu sinni vegna 37 landsliðsverkefna, 19 liða og vegna verkefna 38 einstaklinga.  Sótt var um styrki til sjóðsins vegna verkefna 92 einstaklinga að þessu sinni og er aðeins hluti þeirra verkefna styrktur sérstaklega.



Rétt er að leggja áherslu á að það eru sérsambönd sem hljóta styrki vegna verkefna tilgreindra íþróttamanna, en ekki íþróttamennirnir sjálfir.  Flokkun í A, B og C flokka er hugsuð til að hvetja til árangurs á heimsvísu sem og til að skapa ákveðið viðmið varðandi upphæðir og þjónustu.



Á Íþróttaþingi 2013 var ákveðið að fella niður Styrktarsjóð ungra og framúrskarandi efnilegra íþróttamanna og sameina hann við Afrekssjóð ÍSÍ.  Sú sameining átti sér stað nú um síðustu áramót og er nú í fyrsta sinn úthlutað úr sameinuðum Afrekssjóði ÍSÍ.  Felur þessi breyting í sér meiri sveigjanleika hvað varðar aldursviðmið sem og upphæðir.  Ný reglugerð hefur þannig tekið gildi sem áréttar þetta og verður hún kynnt betur fyrir sérsamböndum á næstunni.



Þrátt fyrir að úthlutað sé að þessu sinni rúmlega 96 milljónum króna, sem er hækkun frá styrkjum undanfarinna ára (undantekning þó árið 2012), er enn langt í land að styrkir ÍSÍ standi undir afreksstarfi sérsambandanna.



Fyrir árið 2014 eru litlar breytingar á listum þeirra sem eru metnir með A, B og C viðmið en þeim fjölgar nú um einn, þ.e. 8 eru metnir til A-styrks og 8 til C-styrks.  



Sjóðsstjórnin leggur áfram áherslu á að efla þjónustu fagteymis og fræðslu fyrir íþróttamenn sérsambanda.  Þannig mun sérsamböndum gert kleyft að sækja sérstaklega um styrk til sjóðsins vegna verkefna sem snúa að fræðslu og fyrirbyggjandi aðgerðum frá skilgreindu fagteymi sérsambands eða ÍSÍ.  Afrekssjóður mun einnig styrkja þjónustuþætti vegna þeirra íþróttamanna sem skilgreindir eru á A, B og C styrkjum sjóðsins.  



Þeir einstaklingar sem sérsambönd ÍSÍ sóttu um styrk fyrir verða skilgreindir í Afrekshóp ÍSÍ og stendur þeim til boða fræðsla og þjónusta á vegum sjóðsins.  Þessi hópur mun telja í heildina um 100 einstaklinga sem eru í senn okkar fremsta íþróttafólk en jafnframt það efnilegasta í einstaklingsíþróttagreinum.  Fyrsti fræðsluviðburðurinn mun fara fram 26. febrúar næstkomandi.



Íslenskt afreksíþróttafólk eru ætíð mikilvægar fyrirmyndir fyrir íslenska æsku og þjóðfélagið í heild sinni.  Þegar vel gengur styðja Íslendingar vel við sína fremstu íþróttamenn en þegar á móti blæs er stutt í gagnrýnisraddir.  Líkt og áður er mjög mikilvægt að hlúa enn betur að þessu fólki með því að gefa því tækifæri á að taka þátt í verðugum verkefnum og styðja við bakið á því með fræðslu og faglegri þekkingu.  



Frekari styrkjum mun verða úthlutað á árinu 2014 og mun stjórn Afrekssjóðs ÍSÍ fylgjast náið með framvindu og árangri á árinu.  Árangur íþróttamanna á árinu 2013 var í sumum tilfellum lakari en vonast var til og verður gerð meiri krafa til íþróttamanna um að þeir standi sig árangurslega á komandi ári.  Þá eru fjölmargir ungir og efnilegir íþróttamenn líklegir til afreka á árinu og er hlutverk Afrekssjóðs ÍSÍ að styðja við það öfluga starf sem á sér stað á vegum sérsambanda og íþróttanefnda ÍSÍ.



Úthlutun sjóðsins kynntu Lárus L. Blöndal forseti ÍSÍ, Örn Andrésson formaður Afrekssjóðs ÍSÍ, Gunnar Bragason gjaldkeri ÍSÍ, Líney Rut Halldórsdóttir framkvæmdastjóri ÍSÍ og Andri Stefánsson sviðsstjóri Afreks- og Ólympíusviðs ÍSÍ.

 

Í fréttatilkynningunni er nánar útlistað hvað hvert sérsamband hlýtur í styrki úr sjóði Afrekssjóðs ÍSÍ. Nálgast má fréttatilkynninguna í heild sinni hér.