Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

2

Fagna afrekum sínum eftir á

08.05.2018

Þær aðstæður koma nú reglulega upp þar sem íþróttafólk sem unnið hefur til verðlauna á Ólympíuleikum gerist sekt um lyfjamisferli og missir því verðlaun sín. Það íþróttafólk, sem næst er í röðinni missti því af sínu tækifæri til þess að fagna afrekum sínum á verðlaunapalli á Ólympíuleikum. Íþróttamannanefnd innan Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) hefur unnið að því síðustu mánuði að setja saman ákveðin viðmið fyrir þetta íþróttafólk, um hvernig það geti fengið sín verðlaun afhent og þar með fagnað sínum árangri. Nýlega samþykkti framkvæmdastjórn Alþjóðaólympíunefndarinnar (IOC) þessi meginviðmið sem íþróttamannanefndin setti saman.

Íþróttafólk getur nú valið um nokkra möguleika þegar kemur að því að fá verðlaun sín frá Ólympíuleikum afhent eftir á:
1. Á næstu Ólympíuleikum.
2. Á Ólympíuleikum ungmenna.
3. Í höfuðstöðvum IOC eða á Ólympíusafninu.
4. Í hófi á vegum sinna Íþrótta- og Ólympíusambanda.
5. Á viðburði eða hófi alþjóðasambands.
6. Í einkahófi.

Þegar íþróttamaður hefur valið sér þann möguleika sem honum finnst ákjósanlegastur aðstoðar IOC hvert íþrótta- og/eða Ólympíusamband við að ljúka við verðlaunaafhendinguna innan eins árs, nema íþróttamaður vilji fá verðlaun sín afhent á næstu Ólympíuleikum.

Eftir að upp komst um lyfjamisferli rússneska frjálsíþróttasambandsins og rússnesks íþróttafólks árið 2015 hefur markmið Alþjóðalyfjaeftirlitsstofnunarinnar (WADA) og íþrótta- og ólympíusamtaka víðsvegar um heiminn verið að skera upp herör gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Sérstakur rannsóknarsjóður var stofnaður á vegum Alþjóðaólympíunefndarinnar sem styrkir rannsóknir tengdar baráttunni gegn lyfjamisnotkun í íþróttum. Alþjóðafrjálsíþróttasambandið hefur t.d. reynt að bæta upp því íþróttafólki sem svindlað var á upp með því að afhenda þeim verðlaun sín á stórum viðburðum með viðhöfn. Fjölmargir Ólympíumeistarar og heimsmeistarar í frjálsíþróttum hafa misst verðlaun sín undanfarið eftir að komist hefur upp að þeir hafi notað árangursbætandi efni. Geyma má sýni íþróttafólks í tíu ár eftir að þau eru tekin og því hægt að dæma óhreinan íþróttamann allt að tíu árum eftir brot. Með betri tækni í lyfjaeftirliti hefur verið hægt að skanna nánar sýni íþróttafólksins.

Lyfjaeftirliti Íslands og WADA er umhugað um að keppni íþróttafólks sé á jafnréttisgrunni og enginn hafi hag af misnotkun árangursbætandi efna. Ljóst er að baráttan gegn lyfjamisnotkun er ekki verkefni einstakra hópa eða samtaka, ef árangur á að nást þarf samvinnu og samstarf margra einstaklinga og hópa víðs vegar að.

Lyfjaeftirlit Íslands fylgir Alþjóðalyfjareglum WADA. Nýjar og uppfærðar lyfjareglur tóku gildi 1. janúar 2018 og má sjá hér.

Tilgangur Alþjóðalyfjareglnanna er að vernda grundvallarrétt íþróttamanna til að taka þátt í lyfjalausum íþróttum og stuðla þannig að heilbrigði, sanngirni og jafnrétti fyrir íþróttamenn um allan heim. Auk þess að tryggja samræmdar, samstilltar og skilvirkar áætlanir gegn lyfjanotkun á alþjóðavísu og landsvísu hvað varðar greiningu, hömlur og forvarnir.

Vefsíðu Lyfjaeftirlits ÍSÍ má sjá hér.