Beint á efnisyfirlit síðunnar

Á döfinni

3

Nemendum sem stunda íþróttir líður betur

12.06.2020

Um 90% barna í hverjum árgangi fer í gegnum íþróttastarf með íþróttafélagi á einhverjum tímapunkti. „Þetta er ótrúlega hátt hlutfall. Ef ég væri forstjóri í fyrirtæki, þá væri ég stolt af þessum tölum,“ segir Margrét Lilja Guðmundsdóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknum og greiningu (R&g) og í íþróttafræðideild Háskólans í Reykjavík. Margrét kynnti niðurstöður Ánægjuvogarinnar 2020 á kynningarfundi sem Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands (ÍSÍ), Ungmennafélag Íslands (UMFÍ) og Háskólinn í Reykjavík stóðu fyrir í morgun. 

Streymt var beint frá fundinum á Facebook-síðum ÍSÍ og UMFÍ. Hægt er að horfa á allan fundinn hér:
Streymi frá Facebook ÍSÍ

Í niðurstöðum Ánægjuvogarinnar 2020 kemur m.a. fram að 61% nemenda í efstu bekkjum grunnskóla æfi með íþróttafélagi einu sinni í viku eða oftar. Meirihluti nemendanna metur andlega og líkamlega heilsu sína góða, eru síður líkleg til að sýna af sér frávikshegðun og neyta vímuefna. „Það er í raun alveg sama hvar ég stíg niður, þeim nemendum líður betur sem eru virkir í íþróttastarfi. Eftir því sem þau eru virkari líður þeim betur,“ segir Margrét Lilja og bætti við að kostir skipulags íþróttastarfs séu fleiri. Þar á meðal vinni þeir nemendur sem alast upp í skipulögðu íþróttastarfi betur í hópi og eru umburðarlyndari en aðrir.

Rannsóknir og greining hafa lagt spurningalista fyrir nemendur í 8., 9. og 10. bekk frá árinu 1992 í rannsókninni Ungt fólk. Þetta er í þriðja sinn sem Ánægjuvogin er unnin fyrir ÍSÍ og UMFÍ en í henni felst að spurningar tengdar íþróttum og íþróttaiðkun er bætt við spurningalistana. Listarnir voru lagðir fyrir nemendur bekkjanna í febrúar á þessu ári og var svarhlutfallið 85%. Margrét Lilja segir svarhlutfallið einstakt, slíkt þekkist hvergi annars staðar í heiminum og gefi það afar góða innsýn í líf ungs fólks.

Einstakt forvarnastarf
Margrét Lilja segir niðurstöður rannsókna Rannsókna og greininga sýna ótvírætt kosti skipulags íþróttastarfs. „Við sjáum hvaða þættir það eru sem eru verndandi og hvaða þættir það eru sem draga úr líkum á því að barn leiðist út í einhvers konar frávikshegðun, sér í lagi vímuefnaneyslu. Við sjáum að skipulagt íþrótta- og tómstundastarf hefur forvarnargildi. Það er ekki nóg að gefa barni fótbolta, handbolta eða tennisspaða, heldur þarf starfið að vera skipulagt og fullorðinn fagaðili að halda utan um það,“ segir hún og bætir við að forvarnagildið hafi vakið heimsathygli. „Við höfum eitthvað alveg einstakt. Það hefur tekið tíma, en við sjáum enn atriði sem við getum gert betur,“ segir hún og bendir á að íslenska forvarnamódelið láti kannski ekki mikið yfir sér, en þegar komi að forvarnarvinnu á meðal barna og ungmenna á Íslandi þá sé Ísland best í heimi. „Við höfum náð það góðum árangri hér að horft er til okkar. Við vinnum að því í yfir 30 löndum að innleiða þessa forvarnastefnu. Í raun og veru kenna fagfólki og sérfræðingum erlendis hvað við getum gert til að draga úr vímuefnaneyslu barna og ungmenna,“ sagði hún.

Skýrslur fyrir íþróttahéruðin
Niðurstöður Ánægjuvogarinnar eru greindar niður eftir íþróttahéruðum. Íþróttahéruðin hafa fengið skýrslu senda um stöðuna hjá iðkendum sem falla undir félög þeirra. Jafnframt er hægt að bera hvert íþróttahérað saman við önnur héruð og stöðuna í landinu í heild. Margrét Lilja segir þetta tækifæri fyrir sveitarfélög og forsvarsfólk íþróttahéraða. „Við getum nú skoðað stöðuna í nærumhverfi barnanna. Ég hvet ykkur til þess að nýta skýrslurnar og flagga niðurstöðunum,“ sagði hún.

Umgjörðin hefur forvarnagildi
„Við viljum að öll börn séu innan skipulags starfs. Það er ekki hreyfingin sem slík sem hefur forvarnargildi heldur umgjörðin og hefðir sem hafa skapast í kringum íþróttastarfið. Forvarnargildið felst því í því að vera í skipulögðu íþrótta- eða æskulýðsstarfi. Niðurstöðurnar gefa líka upplýsingar um það hvar við getum bætt okkur. Það er nokkuð sem við þurfum að taka til okkar, íþróttahreyfingin og íþróttafélögin,“ sagði Líney Rut Halldórsdóttir, framkvæmdastjóri ÍSÍ, þegar hún tók til máls við upphaf kynningarinnar á Ánægjuvoginni.

Þurfum að nýta niðurstöðurnar
„Ég man þegar ég var hjá íþróttafélagi og fékk niðurstöðurnar. Ég stakk þeim ofan í skúffu. Nú þurfum við að koma þeim á framfæri og halda þeim á lofti. Þá munum við ná enn betri árangri, sérstaklega að ná til barna utan íþróttastarfsins eða í jaðarhópum, sagði Auður Inga Þorsteinsdóttir, framkvæmdastjóri UMFÍ, við lok kynningarinnar.

Ánægjuvogin 2020

Upptaka af kynningunni verður aðgengileg á næstu dögum á Vimeo-síðu ÍSÍ.

Á myndunum með fréttinni má sjá Ragnhildi Skúladóttur, sviðsstjóra Þróunar- og fræðslusviðs ÍSÍ, Líneyju Rut Halldórsdóttur framkvæmdastjóra ÍSÍ, Margréti Lilju Guðmundsdóttur hjá Rannsóknum og greiningu og Auði Ingu Þorsteinsdóttur framkvæmdastjóra UMFÍ.

 

Myndir með frétt